Eftir helför nasista gegn gyðingum og fleiri hópum var gjarnan sagt „aldrei aftur“. Það „loforð“ hefur margoft verið svikið síðan þá. Í áfanganum á að skoða 20. og 21. öldina og líta á það sem flokkað hefur verið sem þjóðarmorð og/eða voðaverk en einnig verður skoðað hugtak sem farið var að nota um 1990; þjóðernishreinsanir. Því miður er af mörgu að taka í áfanga sem þessum. Efnistökin verða þau að með lestri, áhorfi og verkefnavinnu eiga nemendur að kynna sér ýmis þjóðarmorð og voðaverk sem framin hafa verið á sl. rúmum hundrað árum einkum af opinberum aðilum eða ríkisstjórnum. Einnig á að skoða refsingar og stríðsglæpadómstóla. Meðal þess sem skoðað verður er: Helförin, Namibía: Herero fólkið, Armenía 1915, Sovétríkin: hreinsanirnar og hungursneyðin í Úkraínu, helförin, voðaverk Japana í Kína, stríðið í Júgóslavíu, Kambódía árið núll, Rúanda, Darfúr, Austur Tímor og fleira.