Í áfanganum verða teknir fyrir valdir þættir í Íslands- og mannkynssögu
á 19. og 20. öld. Þættirnir eru valdir af nemendum og kennara og spilar
áhugi nemenda því stórt hlutverk. Samhliða verður lögð áhersla á
gagnrýna hugsun og hvernig á að leita heimilda, meta þær og nýta.
Það er sérstaklega mikilvægt með tilliti til þess upplýsingamagns sem
hefur orðið til á tímabilinu. Í áfanganum er kennslubókin ákveðið
grunnefni sem er afar mikilvægt að nemendur lesi til þess að öðlast
ákveðinn grunn. Dýpt er fengin með vinnunni í kennslustundum þar sem
farið verður í stór og smá verkefni sem krefjast meðal annars
sjálfstæðra vinnubragða og heimildaleitar. Nemendur vinna þessi
verkefni jafnt einir og með samnemendum þar sem allir þurfa að bera
jafn mikla ábyrgð á vinnunni. Fjölbreyttar matsaðferðir stuðla að því.
Mikil áhersla er lögð á að nemendur kynnist mismunandi tegundum
heimilda og læri að leggja mat á þær með gagnrýnni hugsun. Við
verkefnavinnuna er lögð áhersla á að nemendur kafi djúpt ofan í
viðfangsefnin sem verða fyrir valinu. Jafnframt kynnast nemendur
kostum og göllum ólíkra miðlunarforma sögulegs fróðleiks með því að
spreyta sig á þeim. Sú vinna markast af tímabilinu sem verður til
umfjöllunar. Nálægðin í tíma veitir nemendur kost á fjölda
heimildategunda til að leita í og verkefni munu bera keim af því og
kynna nemendur fyrir flóru heimildanna.